154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ríkisstjórnin hafi verið í aðhaldsaðgerðum á hverju einasta ári og stundum of miklum að mínu mati meira að segja. Það hefur verið þannig að við höfum verið að beita ríkisfjármálunum skynsamlega sem sýnir það. Auðvitað hefur hagvöxturinn haft sitt að segja og koma ferðamanna og allt þetta. Við erum að rísa miklu hraðar en kannski björtustu sviðsmyndir hafa gefið tilefni til. Það átti líka við síðast og það á við núna áfram. Hvort það hefur eitthvað að segja með getuna til að gera góðar áætlanir ætla ég ekki að fullyrða, en alla vega er það þannig að við höfum verið að mínu mati verið að sýna aðhald í ríkisfjármálunum síðustu tvö ár. Hvort það hafi verið nægilega mikið — eins og ég sagði við hv. þingmann áðan þá auðvitað greinir okkur eflaust á um hvað hefði mátt fara skarpt. (Forseti hringir.) Ég tel að við hefðum ekki getað farið hraðar í það en við gerðum í síðustu fjárlögum (Forseti hringir.) þannig að ég stend með þeim (Forseti hringir.) sem við erum að upplifa núna 2023 sem og þeim sem fram undan eru. En ég tel að það þurfi að skoða þau eins og ævinlega í fjárlaganefnd.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill ítreka að ræðutíminn er ein mínúta í síðari umferð.)